Frá Bumbu til Fæðingar blogg og fræðsla
Share
Hæ hæ og velkomin í fræðslu- og blogghornið hjá Frá Bumbu til Fæðingar!
Markmiðið hér er að veita verðandi mæðrum fræðslu og nytsamleg ráð bæði fyrir meðgönguna og tímann eftir fæðingu.
Smá um mig og bókina
Ég heiti Emilía Madeleine Heenen og er stofnandi Frá Bumbu til Fæðingar og rithöfundur bókarinnar. Áður en ég gaf bókina út hafði þessi hugmynd búið í maganum á mér í nokkur ár, en alltaf kom eitthvað upp sem hélt mér frá því að kýla á að gefa hana út.
Hugmyndin kviknaði þegar dóttir mín var í bumbunni minni. Ég hugsaði mikið um hvernig meðgangan hennar móður minnar hefði verið þegar hún gekk með mig, en því miður gat ég ekki spurt hana þar sem hún lést þegar ég var aðeins 22 ára. Á þeim tíma var ég auðvitað ekki farin að hugsa út í neitt sem tengdist meðgöngu, og því miður er maður sjaldnast að velta svona stórum hlutum fyrir sér þegar maður er svona ungur.
Þegar ég svo varð 26 ára og ólétt af mínu fyrsta barni fann ég oft fyrir söknuði. Það hefði verið ómetanlegt ef móðir mín hefði haldið dagbók sem ég gæti kíkt í og þannig komist nær henni. Úr þessu kviknaði hugmyndin að skrá niður minningar frá minni eigin meðgöngu fyrir börnin mín. Ég fór að skoða hvort til væru meðgöngudagbækur á íslensku, en á þeim tíma fann ég enga. Mig langaði ekki að skrifa í bók á ensku, svo ég fór að brainstorma – og smátt og smátt varð hugmyndin að þessari bók til.

Ég eignaðist svo dóttur mína, Önnu Elínu, og þá fór hugmyndin aðeins inn í skúffu, en ég hélt áfram að krassa niður hugmyndir og bæta við. Þegar ég varð síðan aftur ólétt, nú af syni mínum sem fæddist fyrr á þessu ári, ákvað ég að fara loksins „all in“. Ég var svo heppin að kynnast Elínu, eiganda 9mánaða, sem var til í að gefa bókina út með mér.


Ég verð líka að gefa stórt shoutout á grafísku hönnuðina sem unnu bókina með mér, Patrek Björgvinsson og Kötlu Einarsdóttur hjá KE&PB. Þau hönnuðu meðal annars allar fallegu myndirnar í bókinni og eiga stóran þátt í því hversu falleg hún varð. Án þeirra hefði bókin aldrei orðið að veruleika.

Frá Bumbu til Fæðingar – fræðsla og spjall
Eitt af því sem mig langar að Frá Bumbu til Fæðingar verði, er staður þar sem óléttar konur geta leitað með allar hugsanlegar spurningar um meðgöngu og einnig tímann eftir fæðingu. Markmiðið er að fræða, opna á samtal, skapa notalegheit og byggja upp samfélag.
Það er stórkostlegt að upplifa það að ganga með barn og fæða það – tilfinning sem erfitt er að lýsa. En meðganga getur líka verið krefjandi og stundum stressandi. Við erum hér til að svara spurningum, róa, styðja og veita tæki og tól til að gera þetta ferðalag sem magnað og rólegt og hægt er.
RVK Ritual x Frá Bumbu til Fæðingar
Þess vegna fékk ég stelpurnar hjá RVK Ritual með mér í lið sem fyrsta samstarfið í þessu horni. Þær eru einmitt allt sem mig langar að brandið standi fyrir. Þegar ég var ólétt af dóttur minni sótti ég meðgöngujóga hjá Evu og Dagnýju hjá RVK Ritual, sem var einstök upplifun og hjálpaði mér ótrúlega mikið.
Ég fékk þær til að útbúa stutta jógaæfingu og hugleiðslu fyrir ykkur – aðeins um 20 mínútur – sem ættu að hjálpa til við að róa taugakerfið og koma líkamanum mjúklega af stað. Ég mæli með að gera þessa æfingu aftur og aftur og aftur!
Hér er linkur á æfinguna og á síðuna þeirra. Ég mæli einnig með að skoða membershipið þeirra – ég hef sjálf verið hluti af því í smá tíma núna og það leynist allskonar djúsí efni þar. Yoga æfing
Stay tuned fyrir meira – og endilega fylgið mér á Instagram <3